Laugardaginn 25. janúar léku þrír nemendur Tónlistarskóla Árnesinga með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, í Langholtskirkju í Reykjavík. Þetta voru þau Hildur Tanja Karlsdóttir, Ingibjörg Óafsdóttir og Óttar Pétursson. Þau mættu á 12 æfingar til Reykjavíkur í janúar, og þrátt fyrir köflótt veðurfar gekk æfingadagskráin upp.
Að fá tækifæri til að taka þátt í stóru verkefni sem þessu (með um 80 öðrum flytjendum) er mjög eflandi og ómetanlegt fyrir nemendur. Á dagskrá voru þrjú verk. Pequene Czarda eftir Iturralde, Danzón nr. 2 eftir Márquez og þættir úr Camensvítum I og II eftir Bizet.
Stjórnandi tónleikanna var Guðmundur Óli Gunnarsson, en til gamans má geta þessa að hann kennir þessum sömu nemendum tónlistarvalgrein við Tónlistarskóla Árnesinga.
Óttar, Ingibjörg og Hildur Tanja að afloknum tónleikum.
Mynd af hópnum, af facebooksíðu Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna