Suzuki-tónleikahátíð í Royal Albert Hall

Um páskana brugðu nokkrir nemendur og kennarar undir sig betri fætinum og tóku þátt í alheims Suzuki-tónlistarviðburði í Royal Albert Hall í London. Breska Suzuki-sambandið stóð fyrir mótinu að þessu sinni, en aðal driffjöður þess er Helen Brunner, kraftmikill fiðlukennari á níræðisaldri.

Þátttaka í móti sem þessu er mikil upplifun fyrir nemendur, kennara og foreldra, enda ótrúlegt að verða vitni að þeirri samstillingu sem næst. Um 1.300 nemendur tóku þátt að þessu sinni, frá 32 löndum (eða allt frá Argentínu til Zimbabwe og Íslandi til Vietnam, eins og Ed Kreitman kynnir sagði á tónleikunum). Nemendur voru á aldrinum fimm ára til tvítugs og léku saman á fiðlu, víólu, selló, píanó, þverflautu og blokkflautu. Á dagskrá tónleikanna (sem voru þriggja klst. langir) var Suzuki-námsefnið leikið auk annarra verka s.s. eftir Bartók, Mendelssohn og Meditation eftir Jules Massenet.

Segja má að viðburðurinn hafi verið Suzuki-hugmyndafræðin í hnotskurn, þar sem fjöldi nemenda og kennara koma saman til að spila saman og tengjast í gegnum tónlistina. Kennarar gefa allir vinnu sína, þ.á.m. okkar kennarar og þrír íslenskir stjórnendur hljómsveita. Engum nemendum, sem sóttust eftir þátttöku, var vísað frá og tónleikasalurinn þéttskipaður. Daginn fyrir tónleika var haldin ein æfing með öllum þátttakendum og svo rann tónleikadagurinn 9. apríl upp. Nemendur, kennarar og foreldrar voru allir sammála um að þetta hafi verið ótrúleg lífsreynsla. Að sjá og heyra 1.300 nemendur leika af slíkri samstillingu og tærleika og með fullan fókus í þrjár kukkustundir!

Á meðfylgjandi myndum má sjá nemendur okkar sem tóku þátt, þær Sólrúnu, Aðalheiði, Guðrúnu Birnu og Valdísi Jónu, en að auki voru tveir kennarar okkar á staðnum, þau Guðmundur Kristmundsson og Sylvía Rossel.

Horft yfir og úr sal

 

Blokkflautuleikarar á sviði …                                                               … og fiðluleikarar utan við Royal Albert Hall

(Myndir frá mótshöldurum og Kjartani Björnssyni)

 

/Helga Sighvatsdóttir

2023-06-02T13:44:28+00:00
Þessi vefur notar vafrakökur (cookies) til að tryggja sem besta upplifun þegar hann er skoðaður. Þessi borði hverfur þegar þú samþykkir notkun. Þú getur breytt stillingum á kökum hvenær sem er. Í lagi