Samstarfsverkefni Flóahrepps, Flóaskóla og Tónlistarskóla Árnesinga. Tónlistarskólinn kennir í flestum grunnskólum Árnessýslu og hafa þá nemendur tækifæri til að sækja tónlistarkennslu á skólatíma. Þetta getur í mörgum tilvikum verið eini möguleiki nemendanna til hljóðfæranáms, þar sem þau eru bundin af akstri skólabíla og ekki mögulegt að skutlast með börnin lengri vegalegndir eftir skóla. Í Flóaskóla hefur verið kennt á hljóðfæri um árabil, en vegna kennaraskipta féll þessi kennsla niður sl. tvö ár. Með sameiginlegu átaki sveitarfélags, grunnskóla og tónlistarskóla er tónlistarkennslu í Flóaskóla nú ýtt aftur úr vör frá 1. febrúar. Boðið er upp á píanónám á skólatíma og var aðsókn framar björtustu vonum. Það er Timothy Andrew Knappett píanókennari, eða Tim eins og við köllum hann, sem sér um kennsluna.
Við óskum nýju nemendunum okkar góðs gengis á tónlistarbrautinni. Um leið þökkum við frábært samstarf við Flóahrepp og Flóaskóla við undirbúninginn.
/Helga Sighv.
Myndin hér fyrir neðan var tekin á 20 ára afmæli Flóaskóla 22.1.2025.