Auk hefðbundinnar kennslu standa nemendum oft til boða, námskeið af ýmsu tagi. Má þar nefna Suzuki-námskeið og upprifjunardagar, meistaranámskeið og landsmót blásara- og strengjasveita með alls konar námskeiðahaldi.
Nýverið voru haldin tvö skemmtileg og fræðandi námskeið í tónlistarskólanum.
Þann 14. mars var haldið námskeið í tali og tónum, um rytmíska tónlist fyrir nemendur í rytmísku, gítar- og fiðlunámi. Námskeiðið var í umsjón Björns Thoroddsen, Unnar Birnu Björnsdóttur, Skúla Gíslasonar og Sigurgeirs Skafta Flosasonar. Kynntu þau ýmsar tónlistartegundir, léku nokkur lög og ræddu við nemendur um tónlistina og framkomu á tónleikum og svöruðu spurningum áheyrenda.
Þann 18. mars var svo haldið fræðsluerindi með nemendum í framhaldsnámi um ýmsa tónlistartengda möguleika varðandi nám og störf. Gestir fundarins voru Elín Anna Ísaksdóttir fag- og verkefnastjóri Listaháskóla Íslands og tveir nemendur LHÍ. Kynntu gestirnir þá fjölmörgu námsmöguleika sem bjóðast innan tónlistardeildar Listaháskólans og svöruðu spurningum nemenda og kennara. – Að auki var nemendum bent á enn fleiri möguleika sem tónlistarleg þekking getur opnað varðandi nám og störf.
Nálgast má upplýsingar á heimasíðu Tónlistarskóla Árnesinga, www.tonar.is: „TÓNLIST – möguleikar – nám og starf“
Meðfylgjandi eru myndir frá rytmíska námskeiðinu 14. mars og mynd af Elínu Önnu (af vef Listaháskóla Íslands).