Árlegt jólaball Suzukideildar var haldið í Sunnulækjarskóla 4. desember 2024 og var eins og áður mikil hátíð.
Í upphafi dagskrár sameinuðust nemendur í hjómsveit, en hana skipuðu nemendur á blokkflautur, gítara, fiðlur, víólur og selló. Lék hljómsveitin nokkur jólalög og aðra tónlist sem nemendur hafa verið að æfa á haustönninni. Foreldrar Suzukinemenda tóku líka þátt og léku með í nokkrum lögum.
Gengið var í kringum jólatré og jólalögin sungin við undirleik nemenda- og kennarahljómsveitar. Jólasveinninn mætti með mandarínur í poka, grín og glens og tók þátt í dansinum.
Loks skiptust píanónemendur á um að leika jólalög á meðan gestir gæddu sér á smákökum og öðru góðgæti sem nemendur tóku með sér á kaffiborðið.
Lifandi tónlist, líf og gleði einkennir alltaf þennan fasta lið í skólastarfinu og eiga kennarar heiður skilinn fyrir að halda svo vel utan um verkefnið.
/Helga Sighv.