Dagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur um land allt sl. laugardag 9. febrúar.
Tónlistarskóli Árnesinga stóð fyrir 6 svæðistónleikum í tilefni dagsins og komu fram alls um 300 nemendur.
Tónleikar voru haldnir í Aratungu, Félagsheimilinu Flúðum, Þorlákskirkju, Hveragerðiskirkju og tvennir tónleikar í sal Tónlistarskólans á Selfossi.
Efnisskráin var mjög fjölbreytt og þema vetrarins (sampil þriggja og fleiri) skilaði sér skemmtilega inn í tónleikadagskrána. M.a. mátti sjá „píanóhringekjur“ þar sem píanónemendur léku lagasyrpur á tvö píanó, ýmsa ólíka samspilshópa auk fjölda einleikara.
Stóðu nemendur sig afskaplega vel og fallegur bragur yfir öllum tónleikunum. Kennarar eiga líka hrós skilið fyrir gott utanumhald, en þeir skiptu með sér verkum og gengu allar skiptingar, kynningar og annað mjög smurt fyrir sig.
Á meðfylgjandi myndum má sjá lítið brot nemenda sem fram komu á Degi tónlistarskólanna.