Það er alltaf ánægjulegt og stór áfangi þegar nemendur ljúka framhaldsprófi frá tónlistarskólanum. Í vor lauk Margrét Guangbing Hu framhaldsprófi og hélt tilheyrandi tónleika í Hveragerðiskirju þann 28. maí sl. Til gamans má geta þess að Margrét er yngsti nemandi Tónlistarskóla Árnesinga sem lýkur framhaldsprófi, en hún útskrifast frá Grunnskólanum í Hveragerði í vor.
Margrét hóf Suzuki-píanónám við Tónlistarskóla Árnesinga árið 2009, þá 5 ára gömul, en kennari hennar frá upphafi hefur verið Ester Ólafsdóttir. Hún hefur komið fram við fjölda tækifæra innan og utan skólans og tók m.a. þátt í svæðistónleikum Nótunnar (uppskeruhátíð tónlistarskólanna) í Hafnarfirði 2014. Hún lék líka í óperuuppfærslum skólans, Töfraflautunni 2016 og Allskynsóperunni 2019 svo fátt eitt sé talið.
Við óskum Margréti innilega til hamingju með framhaldsprófið.