Námsvísir

Námsvísir

21/10/2010

Heimaæfingar

Þó tímalengd æfinga sé mismunandi eftir aldri og hve langt nemandinn er kominn í námi, er mjög mikilvægt að leggja áherslu á reglulegar, daglegar æfingar alveg frá upphafi. Yngstu nemendurnir spila 5-10 mín. á dag, svo lengist æfingatíminn eftir því sem lengra líður í námi. Nemendur í efri stigum æfa löng og flókin verkefni og þurfa til þess u.þ.b. 2 klst. á dag. Foreldrar/forráðamenn geta orðið að miklu liði með því að hjálpa nemendum að skipuleggja æfingatímann (hvenær og hvernig er æft). Útbúa þarf rétt andrúmsloft og umhverfi fyrir æfingar. Er til statív? Er stóllinn í réttri hæð? Heyrist of mikið í sjónvarpi úr næsta herbergi? Aðalatriðið er að sýna áhuga á því sem börnin eru að gera. Lykilatriði í tónlistariðkun er að „æfingin skapar meistarann“.

 

Dagbækur

Í upphafi vetrar fá nemendur afhenta dagbók (æfingabók). Í hana skrá kennarar hvað nemendur eiga að æfa heima og aðrar ábendingar og skilaboð til foreldra/forráðamanna. Einnig geta foreldrar/forráðamenn fylgst betur með hvað nemendur eiga að læra og kvittað fyrir í bókina hve oft eða hve lengi nemandinn æfir sig.

 

Námsmat – áfangapróf – stigspróf

Samræmt prófkerfi gildir fyrir landið. Samræmd áfangapróf eru grunnpróf (3. stig) , miðpróf (5. stig) og framhaldspróf (7. stig), annars vegar í hljóðfæraleik og hins vegar í tónfræðagreinum. Þau eru dæmd af utanskóla prófdómurum.

     Námstími innan hvers áfanga getur verið breytilegur og ræðst hann meðal annars af aldri, þroska, ástundun og framförum. Miðað er við að flestir nemendur ljúki grunnnámi á þremur til fjórum árum. Í mið- og framhaldsnámi eykst umfang námsins og sá tími sem tekur að ljúka áföngunum, lengist að jafnaði. - Sjá nánar á www.menntamalaraduneyti.is - Námskrá - Námskrá listaskóla.

Áfangapróf eru yfirleitt tekin að vori.

     Önnur stigspróf eru forstig, 1., 2., 4., og 6. stig. Stigspróf eru tekin þegar ákveðnum markmiðum er náð, hvenær sem er yfir veturinn, þó helst á próftímabili að vori. Þau eru dæmd af innanskóla prófdómurum.

    

Í lok haustannar og vorannar gefa kennarar nemendum skriflega umsögn.

     Að vori getur kennari metið hvort nemandi hafi sýnt eðlilegar framfarir með tilliti til áframhaldandi náms.

 

Tónleikar

Tónlistarflutningur er eitt aðalmarkmið tónlistarnáms. Vegna þessa er lögð mikil áhersla á að nemendur spili fyrir aðra að lágmarki tvisvar á vetri.  Tónleikar eru með ýmsu móti í skólanum.

     Á haust- og vortónleikum kennaranna fá allir nemendur tækifæri til að koma fram í sinni heimabyggð. 

     Sýslutónleikar eru nokkrir á hverju ári, þar sem nemendur víðs vegar að úr sýslunni koma saman. Í nóvember eru haldnir deildatónleikar þar sem fram koma allar hljómsveitir skólans og stærri samspilshópar. Hefur deildatónleikunum fjölgað ár frá ári og eru núna sjö talsins, þ.e. blásara-, blokkflautu-, gítar-, píanó-, rytmískir-, strengja- og söngdeildartónleikar. Til viðbótar eru svo haldnir framhaldsdeildartónleikar tvisvar á ári þar sem fram koma nemendur sem lokið hafa miðprófi og stunda nám í framhaldsdeild skólans. Þessir nemendur eiga að baki margra ára tónlistarnám og tónleikarnir mjög metnaðarfullir.

      Á Degi tónlistarskólanna í febrúar eru haldnir 6 - 7 svæðistónleikar þar sem þema vetrarins hverju sinni fær notið sín. Á þessum tónleikum koma fram nemendur frá þeim kennurum sem kenna á viðkomandi svæði. Hljóðfæra- og verkefnaval er jafnan fjölbreyttara en á hefðbundnum tónleikum og nemendur fá tækifæri til að hlusta á ólík verkefni fleiri nemenda.

     Auk þessa fá nemendur mörg önnur tækifæri til tónlistar-flutnings í nafni tónlistarskólans.  Má þar nefna uppákomur í grunnskólum, í kirkjum, á samkomum eldri borgara, félagafundum o.s.frv.

     Nemendur sem koma fram opinberlega á eigin vegum skulu gera það í samráði við tónlistarskólann  (kennara sinn).  

 

Samstarf við foreldra

 Beint samband milli foreldra/forráðamanna og kennara er mikilvægt, enda gefur það möguleika á að ræða um tónlistarnám nemandans. Mikilvægum upplýsingum er þá komið á framfæri sem nýst geta við að aðstoða nemandann við heimanámið.

     Tvær vikur á vetri eru skipulagðar sem heimsóknarvikur. Foreldrar/forráðamenn eru þá boðnir sérstaklega velkomnir í kennslustund barna sinna. Ef foreldrar/forráðamenn komast ekki á boðstíma skulu þeir hafa samband við skólann.

     Ef vandamál koma upp skulu foreldrar tala við kennara og skólastjóra (ef þarf).

 

Samvinna við grunnskóla

Nemendur á grunnskólaaldri eiga í sumum tilvikum kost á að sækja tónlistarnám í tónlistarskólanum á kennslutíma grunnskóla. Þá fær nemandi að fara úr kennslustund  til að fara í tónlistartíma.  Það er þó háð leyfi foreldra/forráðamanna og skólastjóra/kennara  í grunnskóla.

     Síðustu daga fyrir jól taka margir nemendur þátt í tónlistarflutningi í sínum grunnskóla eða úti í samfélaginu, eftir því sem kostur er.

 

Forföll nemenda / forföll kennara

Forfallist nemandi, er skylt að tilkynna það skólanum með eins miklum fyrirvara og hægt er. Nemandinn á ekki rétt á aukatíma vegna forfalla.

     Veikist kennari er honum ekki skylt að bæta upp kennslu sem fellur niður af þeim sökum. Veikindaréttur kennara er samkvæmt kjarasamningi. Ef kennari veikist er reynt að koma skilaboðum til allra nemenda.

     Skólanum er ekki skylt að endurgreiða skólagjöld vegna veikinda kennara. Ef kennari forfallast um lengri tíma, er reynt að útvega forfallakennara.

 

Óveður / ófærð

Starfsreglur tónlistarskólans vegna óveðurs og/eða ófærðar eru:

1.  Ef grunnskóli fellir niður kennslu vegna óveðurs/ófærðar, gildir  það sama um tónlistarskólann á viðkomandi svæði.  

2.  Ef kennsla er ekki felld niður, en veður er slæmt, er það ákvörðun foreldra/forráðamanna hvort nemandinn mætir eða ekki.

3.  Ef kennsla er ekki felld niður, en kennari kemst ekki til starfa vegna óveðurs/ófærðar, verður reynt að hafa samband við alla hans nemendur.

 

Blásaradeild

Kennt er á eftirtalin blásturshljóðfæri: blokkflautu, þverflautu, klarínettu, saxófón, trompet/kornett, horn, básúnu, barítónhorn og túbu. Nemendum er kennd meðhöndlun viðkomandi hljóðfæra og er lögð áhersla á góða meðferð þeirra.

      Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

     Lögð er rík áhersla á að nemendur á blásturshljóðfæri taki þátt í samspili / hljómsveit strax og geta nemandans leyfir.

 

Gítardeild

Kennt er á klassískan gítar, rafmagnsgítar og rafbassa.

     Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

     Lögð er rík áhersla á að gítarnemendur taki þátt í gítarsamspili strax og geta nemandans leyfir.

 

Píanódeild

Kennt er á píanó og orgel. Nauðsynlegt er að nemendur hafi hljóðfæri heima eða að öðrum kosti mjög góðan aðgang að hljóðfæri. Í upphafi píanónáms er mögulegt að komast af með hljómborð en vegna mismunandi ásláttar er mælt með því að nemendur hafi píanó til að æfa sig á frá upphafi.

     Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

 

Rytmískdeild

Kennt er á rafgítar, rafbassa og trommusett samkvæmt rytmískri aðalnámskrá tónlistarskóla.    

Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

Í rytmísku námi er samspil þungamiðja námsins.

 

Slagverksdeild

Kennt er á ýmis hljóðfæri slagverksfjölskyldunnar, bæði samkvæmt klassískri og rytmískri námskrá.

     Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

Lögð er rík áhersla á að nemendur í slagverksdeild taki þátt í samspili.

 

Strengjadeild

Kennt er á hljóðfæri fiðlufjölskyldunnar, þ.e. fiðlu, víólu, selló (og kontrabassa). Yngri nemendur hafa möguleika á að læra með Suzuki-aðferð, en þá þurfa foreldrar að mæta með nemendum í allar kennslustundir.

     Nemendum er kennd umhirða viðkomandi hljóðfæra og er lögð áhersla á góða meðferð þeirra.

    Fullt nám felur í sér 1 klst. kennslu á viku (eða 2 x 30 mín.) á aðalhljóðfæri. Hálft nám  ½ klst. á viku. Frá öðru námsári er miðað við að nemendur séu í fullu námi. Tónfræði í 1. stigi er kennd í hljóðfæratímum (Ópus 1) en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6). 

     Lögð er rík áhersla á að nemendur í strengjadeild taki þátt í samspili strax og geta leyfir.

 

Söngdeild

Nám í söngdeild skiptist samkvæmt námskrá í grunnnám , miðnám og framhaldsnám. Nám getur hafist um 16 – 18 ára aldur en námsupphaf og námshraða þarf þó alltaf að meta einstaklingsbundið.

     Söngnám felur í sér 1 klst. á viku (fullt nám) í raddbeitingu, æfingar með undirleikara (lengd fer eftir námsframvindu), tónfræði og tónheyrn og einnig píanónám á síðari stigum námsins.

     Nemendum á aldrinum 10 - 15 ára býðst að sækja nám sem kallast Söngfuglar. Felst þjálfun bæði í samsöng og einsöng, en náminu lýkur með tónleikum.

 

Suzukinám

Boðið er upp á Suzukinám á blokkflautu, fiðlu, gítar, píanó, selló og víólu. Í Suzukinámi er lögð áhersla á virka þátttöku foreldra allan tímann. Foreldrar mæta í alla tíma með börnum sínum og æfa með þeim heima. Byrjendur (3 – 5 ára) sækja 30 mín. einkatíma á viku og 45 mín. hóptíma aðra hverja viku.

 

Tónfræðagreinar

Tónfræðagreinar eru kenndar frá 9 ára aldri eða eftir því hvar nemandi er staddur í sínu hljóðfæra- / söngnámi. Tónfræði í 1. stigi (Ópus 1) er kennd í hljóðfæratímum en eftir það í hóptímum (Ópus 2 - 6).         

Að afloknu miðprófi (Ópus 6) taka við hljómfræði, tónlistarsaga, tónheyrn og tónlistarvalgrein.

     Skólinn vill undirstrika að þetta nám er mikilvægt fyrir alla nemendur skólans sem grunnur undir góða tónlistarmenntun og að auki er hann skyldupartur í prófkerfi Aðalnámskrár fyrir tónlistarskóla.

     Hljóðfærastigspróf eru ekki fullgild fyrr en samsvarandi tónfræðistigi er lokið.

 

Kammermúsík - samspil - samsöngur

Kammermúsík (samspil) er mjög mikilvægur hluti af tónlistaruppeldi, enda ætti sem oftast að deila ánægju af tónlist með öðrum. Ýmsir samspilshópar eru starfræktir á vegum tónlistarskólans.

 

Strengjasveit                

Við skólann starfar strengjasveit í tveimur deildum, yngri og eldri. Þær æfa á Selfossi og koma nemendur víða að úr sýslunni.

 

Blásarasveit                 

Blásarasveitir eru starfræktar á tveimur stöðum í sýslunni, á Selfossi og í Þorlákshöfn. Á Selfossi koma nemendur víða að úr sýslunni og í Þorlákshöfn er blásarasveitin starfrækt í nánu samstarfi við grunnskólann.

 

Annað  samspil            

Við skólann eru starfræktir ýmsir samspilshópar t.d. gítarhópar, Suzuki-samspilshópar, blokkflautusveitir, rytmískir samspilshópar, blandaðar hljómsveitir, jólahljómsveitir og aðrir samspilshópar sem starfa ýmist reglulega allan veturinn eða æfa saman í styttri tíma.